Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Flotgengi

 

Frá því hefur verið skýrt að íslenska krónan verði aftur sett á flot í kjölfar haftanna eftir hrunið. Hugmyndin er að lánalínur til erlendra seðlabanka og IMF hjálpi seðlabankanum að viðhalda trúverðugleika og tryggja öryggi gjaldeyrisviðskipta þannig að minni hætta sé á beinni árás spákaupmanna.

En hvaða kostir eru í stöðunni?

 

  1. Láta gengið fljóta
  2. Skammta erlendan gjaldeyri með höftum og handstýra genginu
  3. Lögbinda ákveðið skiptagengi og fara síðan a) eða b)
    1. Taka upp fastgegni og binda krónuna við evru
    2. Taka upp dollara sem lögeyri. Á aðlögunartíma, 1-2 ár kaupi seðlabankinn krónur á föstu skiptagengi dollars en verslar með aðra gjaldmiðla á opnum markaði.

Þetta eru í meginatriðum valkostirnir sem til eru í gengismálum nema við viljum taka upp gullpeninga. Af þessum þremur er flotgengi sú aðferð sem er hvað síst háð inngripi stjórnmálamanna á meðan viðskipti eru eðlileg og seðlabanki nýtur trúverðugleika en jafnframt býður hún upp á mestar sveiflur og mestu þörf á gjaldeyrisvaraforða. Flotgengi felur líklegast í sér meiri hættu á nýrri kollsteypu en hinir kostirnir og krefst þess að ríkisstjórn og seðlabanki axli ábyrgð og grípi til aðgerða þegar eða ef áhlaup verður gert á krónuna. 

 

Hinir kostirnir hafa allir þann útgangspunkt að stjórnmálamenn og stjórnendur seðlabanka handstýra og taka geðþóttaákvörðun um gengið í bráð og lengd. Þar sem gengið verður að einhverju eða öllu leyti háð pólitískum ákvörðun er líklegt að fyrirtæki verði ekki rekin á sem hagkvæmastan hátt og pólitísk áhrif aukist. Haftastefna er hrein ávísun á afturhvarf til fortíðar auk þess sem erlendir fjárfestar munu forðast Ísland.

 

Með fastgengi er líklegt að nauðsynlegar leiðréttingar dragist eða farist fyrir vegna ástands í stjórnmálum. Því fylgir hætta á gengisfellingum og jafnvel kollsteypum þegar/ef áhlaup verður gert á krónuna. Fastgengi ætti að stuðla að jafnvægi og hafa þannig jákvæð áhrif á útflutningsgreinar en líklegra er þó að fastgenginu fylgi hár kostnaður og aukinn þörf fyrir gjaldeyrisvarasjóð.

Við ákvörðun skiptagengis og upptöku dollars mundu stjórnvöld þurfa að taka djarfa ákvörðun og óvíst hvort nægur pólitískur styrkleiki næðist fram þótt menn vildu velja þann kost. Einnig er líklegt að þessi kostur yrði valinn til skamms tíma og jafnframt ákveðið að stefna að inngöngu í ESB. Þessi valkostur mundi valda róttækum breytingum og kurr í þjóðfélaginu. Fljótlega mundi hann þó skapa trúverðugleika bæði inn á við og út á við. Mjög miklar líkur eru á að samtímis verði að ganga til samninga um myntsamstarf. Dollar tryggir eftir því sem það er hægt að við förum ekki aftur í þrot með banka- og peningakerfið okkar. Líklega mun uppbygging bæði atvinnugreina sem spara innflutning og þeirra sem auka útflutning verða hraðari en ella og líklegt að við náum fljótt að uppfylla skilyrði fyrir að taka upp myntsamstarf innan ESB.

Þegar maður skoðar kosti og galla þessara leiða er auðveldara að átta sig á því hvers vegna flotgengi er valið þótt skynsamlegra væri að taka upp dollar. Eða hvað?

Mín skoðun er sú að öruggasta, ódýrasta og eina leiðin sen hægt er að mæla með nú sé að taka upp dollar. Það er nauðvörn fyrir fjárhag heimila í okkar landi og gefur okkur svigrúm til að gera upp við fortíðina og skipuleggja framtíðina.


Álagspróf bankanna

Ég spyr, hafði Fjármálaeftirlitið ekki hugmyndaflug til að stilla upp þeirri stöðu sem varð íslensku bönkunum að falli eða mat það líkurnar á að þetta gæti gerst jafnar núlli?

Hið raunverulega álagspróf sýnir að fullyrðingar Fjármálaeftirlits um að bankarnir stæðust álagspróf hafa heldur betur verið orðum auknar.Það þarf ekki mikinn fjármálaspeking til að stilla upp verstu mögulegum aðstæðum sem eiga að vera forsenda álagsprófs. Það eru kannski ekki miklar líkur á að versta staða komi upp en í ljósi reynslunnar má halda því fram að á 25-50 ára fresti geti það gerst sem nú er raunin.

Í meginatriðum eru áhættuþættirnir þessir:

1) Viðskiptavinir fara að taka út af öllum reikningum sínum 

2) Allar eignir m.a. veð í fasteignum og verðbréf tapa verðgildi

3) Íslenska krónan fellur gagnvart öðrum gjaldmiðlum

4) Lausafjárkreppa í heiminum

Sjaldan er ein báran stök og við álagspróf, varnir og fyrirbyggjandi aðgerðir verður að taka mið af versta tilfelli sem er að allt gerist á sama tíma. Álagspróf á að miðast við þær aðstæður sem skapast þegar eignaverð og íslenska krónan eru í botni.

Tap er hin hliðin á gróða og svo vikið sé að vörnum gegn hættu er gullna reglan sú að dreifa eignum og skulda ekki óhóflega. Þegar eignir lækka í verði verður að lækka skuldirnar til samræmis. Það þýðir nánast óhjákvæmilega nokkuð tap og það þarf kjark til að horfast í augu við það. Á samdráttarskeiði gefst það í fæstum tilvikum vel að fresta sölu á eignum og greiðslu skulda, frestun aðgerða eykur líkur á meira tapi. Fyrsta og besta vörnin er að láta skuldir aldrei fara yfir hófleg mörk. Með yfirgripsmiklum upplýsingum og þekkingu er hægt að dreifa áhættu á timum kreppu og leita skjóls um stutta stund í afkimum markaða, en aðeins um stundar sakir, því meginlínur eru mjög jafnhliða á krepputímum.

Hætta á að banki missi trúverðugleika og viðskiptavinir taki út af bankareikningum sínum, tengist oftast öðrum hættum. Það er þó hægt að ímynda sér þær aðstæður að íslenskur banki tapi trausti vegna óhæfra stjórnenda bankans og/eða hneikslismála innan bankans sjálfs, náttúruhamfara eða spillingar á Íslandi. Aðrar ástæður geta verið þær að viðskiptavinir uppgötvuðu skyndilega að lagaumhverfið og eftirlitsstofnanir á Íslandi séu ótryggari en í öðrum löndum. Líkurnar eru litlar en við álagsprófun og varnir er ekki hægt að horfa fram hjá möguleikanum.

Einn stærsti áhættuþátturinn fyruir banka á Íslandi er krónan. Það hljóta eftirlitsstofnanir að hafa séð. Ég spyr því aftur, hvernig gat Fjármálaeftirlitið gefið það út að bankarnir stæðust öll álagspróf miðað við veika stöðu íslensku krónunnar? 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband