Fyrsta konan hlýtur Nóbelsverðlaunin í hagfræði

Framlag Elinor Ostrom Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði 2009 hlýtur að vera mjög mikilvægt fyrir umræðuna um fiskveiðistjórnunarkerfið okkar og aðra hagnýtingu náttúruauðlinda. Ríkisstjórnin þarf að leysa vandamál varðandi auðlindanýtingu án þess að falla í þá gryfju að telja aðeins eitt form yfirráða yfir náttúruauðlindum alltaf best.

Elinor hefur skoðað hvernig sjálfstjórn og staðbundin umráð yfir almenningum virka til að viðhalda gæðum náttúrunnar og reynt að finna hagkvæmasta eignarform og nýtingu. Hún leggur áherslu á að ekkert eitt form eignarhalds geti hindrað ofnýtingu. Gagnstætt því sem margir hafa talið.

Það má segja að Elinor sé fulltrúi hinnar hagsýnu húsmóður eða kannski frekar matmóður sem kann að nýta landsins gagn og nauðsynjar með sjálfbærni og góða búskaparhætti að leiðarljósi.

Elinor hefur rannsakað almannagæði önnur en auðlindir náttúrunnar t.d. opinbera stjórnsýslu. Hún rannsakaði stjórnskipulag lögreglu á 80 þéttbýlisstöðum og sýndi fram á að kenningin um yfirburði hagkvæmni stærðarinnar í götulögreglunni væri röng. Hins vegar er stærðarhagkvæmni í tækni- og rannsóknadeildum í góðu gildi að hennar mati.

Eitt mikilvægasta framlag Elinor var að efla þverfaglega samvinnu háskóladeilda í stjórnmála-, hag- og félagsfræði. Það leiddi til alþjóðlegra rannsókna og samvinnu á sviði umhverfismála. Árið 1990 kom út bók hennar, Governing the Commons, eða Stjórnun almannagæða. Þar setur hún spurningarmerki við andstæðar kenningar um að best fari á að einkaaðilar eða hið opinbera hafi yfirráð yfir almannagæðum svo sem neysluvatni, áveitukerfum og fiskimiðum. 

Þótt hún sýni fram á að bæði yfirráð einkaaðila og hins opinbera hafi leitt til ofnýtingar hefur Elinor fundið að ákveðin lögmál þurfi að vera til varnar almannagæðum. Það verða að vera vel skilgreind landamæri og virkt eftirlit með notendum til að koma í veg fyrir ótilhlýðilega misnotkun almannagæða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband