4.5.2015 | 17:41
Stelsýki og græðgi
Einmitt, sóun efnis! Voðalegt með þennan höfundarétt! Framleiðandi stelur hönnun og býr til eftirlíkingu án leyfis til að sleppa við hönnunarkostnað og borgin kaupir þýfi. Og Píratar aumka þjófinn en álasa sjálfsögðum mannréttindum.
Efnisleg sóun vegna höfundaréttar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.8.2010 | 22:23
Að bera sjúklinga fyrir sig
Vonandi er að framganga sem þessi valdi veiku fólki ekki ofsakvíða og þjáningum. Hvaða ráðslag er þetta eiginlega? Borgar sig ekki annars fyrir landspítalann að ráða sjúkraliða og bílstjóra í dagvinnu og leigja eða kaupa hentuga bíla fyrir þessa sjúkraflutninga heldur en borga yfirvinnutaxta í þessu skyni?
12.10.2009 | 15:01
Fyrsta konan hlýtur Nóbelsverðlaunin í hagfræði
Framlag Elinor Ostrom Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði 2009 hlýtur að vera mjög mikilvægt fyrir umræðuna um fiskveiðistjórnunarkerfið okkar og aðra hagnýtingu náttúruauðlinda. Ríkisstjórnin þarf að leysa vandamál varðandi auðlindanýtingu án þess að falla í þá gryfju að telja aðeins eitt form yfirráða yfir náttúruauðlindum alltaf best.
Elinor hefur skoðað hvernig sjálfstjórn og staðbundin umráð yfir almenningum virka til að viðhalda gæðum náttúrunnar og reynt að finna hagkvæmasta eignarform og nýtingu. Hún leggur áherslu á að ekkert eitt form eignarhalds geti hindrað ofnýtingu. Gagnstætt því sem margir hafa talið.
Það má segja að Elinor sé fulltrúi hinnar hagsýnu húsmóður eða kannski frekar matmóður sem kann að nýta landsins gagn og nauðsynjar með sjálfbærni og góða búskaparhætti að leiðarljósi.
Elinor hefur rannsakað almannagæði önnur en auðlindir náttúrunnar t.d. opinbera stjórnsýslu. Hún rannsakaði stjórnskipulag lögreglu á 80 þéttbýlisstöðum og sýndi fram á að kenningin um yfirburði hagkvæmni stærðarinnar í götulögreglunni væri röng. Hins vegar er stærðarhagkvæmni í tækni- og rannsóknadeildum í góðu gildi að hennar mati.
Eitt mikilvægasta framlag Elinor var að efla þverfaglega samvinnu háskóladeilda í stjórnmála-, hag- og félagsfræði. Það leiddi til alþjóðlegra rannsókna og samvinnu á sviði umhverfismála. Árið 1990 kom út bók hennar, Governing the Commons, eða Stjórnun almannagæða. Þar setur hún spurningarmerki við andstæðar kenningar um að best fari á að einkaaðilar eða hið opinbera hafi yfirráð yfir almannagæðum svo sem neysluvatni, áveitukerfum og fiskimiðum.
Þótt hún sýni fram á að bæði yfirráð einkaaðila og hins opinbera hafi leitt til ofnýtingar hefur Elinor fundið að ákveðin lögmál þurfi að vera til varnar almannagæðum. Það verða að vera vel skilgreind landamæri og virkt eftirlit með notendum til að koma í veg fyrir ótilhlýðilega misnotkun almannagæða.
1.10.2009 | 12:39
Ekki taka of mikla áhættu í ríkisfjármálum
Eignir á móti skuldum rýrnuðu á síðasta ári þegar tekjubólan eða lánabólan sprakk með hvelli. Þetta var ekki fyrsta bólan sem maður hefur upplifað en hún sprakk með heldur verrri afleiðingum en aðrar bólur. Hin ósýnilega hönd markaðarins stakk á bólunni með mjög harkalegum afleiðingum þrátt fyrir að seðlabankar og ríkisstjórnir um allan heim hafi gert ráðstafanir og reynt að milda áhrifin á hið alþjóðlega fjármálakerfi.
Markaðirnir voru að leiðrétta sig 2008 og það blasir nú við að öflugustu seðlabankar og ríkisstjórnir heims hafa ekki yfir að ráða neinum tólum sem geta komið í veg fyrir kreppur. Árið 2009 standa ríkissjóðir uppi með háar skuldir sem atvinnulífinu verður gert að standa undir næstu áratugina.
Þótt fjármálakerfi heimsins hafi náð botni og tölur sýni betri afkomu í framleiðslugreinum er ekki komið að því að fyrirtækin ráði fleira fólk í vinnu. Það er enn óvissa á mörkuðum og það verður ekki fyrr en eftirspurnin verður stöðugri að atvinnuleysið fer að minnka.
Í þessari stöðu er ekki skynsamlegt fyrir stjórnvöld að auka skuldir hins opinbera. Það er skömminni til skárra að herða sultarólina og minnka þjónustu hins opinbera frekar en að reka hið opinbera með dýrum lánum. Ef við getum eitthvað lært af reynslu síðustu ára er það sú staðreynd að of mikil skuldsetning er áhættusöm. Það á við um ríkissjóð jafnt sem fyrirtækin og heimilin.
Lærum af reynslunni og tökum ekki of mikla áhættu í ríkisfjármálum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2009 | 12:07
Framleiðni og krónan
Ég óttast að gjaldeyrishöftin valdi því að íslensk framleiðsla bæði í einkageiranum og hinum opinbera staðni. Með íslensku krónuna höfum við rangan mælikvarða á hagkvæmni og munum þess vegna taka rangar ákvarðanir í fjárfestingum og rekstri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2009 | 23:11
Íslenski skattborgarinn á ekki von á góðu
Fram undan eru erfið mál fyrir íslenska skattborgara en sem betur fer lauk ákveðnum áföngum í Icesave og ESB-umsókn með því að tiltölulega frjálslynd sjónarmið höfðu sigur. Frá því að kreppan skall á í haust hef ég ekki getað fengið mig til að blogga neitt. Umræðan hefur verið svo dapurleg að maður hefur kosið að þegja bara. Á komandi vetri tel ég þó að togstreitan eigi enn eftir að aukast. Fólk mun eðlilega velta mjög vöngum yfir skattaálögum og bera sig saman við aðra þegar kemur að því að skattar verða hækkaðir og ívilnanir af ýmsum toga verða kynntar til sögunnar. Kjarabaráttan á eftir að harðna þar sem kaupmáttur hefur minnkað. Verðbólgan sem enn mælist há hér á landi ber þess vott að fólk treystir ekki ríkisstjórninni og Alþingi til að koma böndum á útgjöld hins opinbera. Það er að heyra á ráðherrum að þeir vilji ekki fækka í starfsliði ríkisins. Og á mörgum sviðum er von á útgjaldahækkunum hjá hinu opinbera vegna nýrra verkefna út af kreppunni. Maður spyr sig því hvort nauðsynlegt sé að auka gjaldeyrisvarasjóðinn nú með erlendum lántökum og hvort nú sé rétti tíminn til að auka umsvif FME.
Ísland: Land án hagkerfis" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.11.2008 | 01:14
Flotgengi
Frá því hefur verið skýrt að íslenska krónan verði aftur sett á flot í kjölfar haftanna eftir hrunið. Hugmyndin er að lánalínur til erlendra seðlabanka og IMF hjálpi seðlabankanum að viðhalda trúverðugleika og tryggja öryggi gjaldeyrisviðskipta þannig að minni hætta sé á beinni árás spákaupmanna.
En hvaða kostir eru í stöðunni?
- Láta gengið fljóta
- Skammta erlendan gjaldeyri með höftum og handstýra genginu
- Lögbinda ákveðið skiptagengi og fara síðan a) eða b)
- Taka upp fastgegni og binda krónuna við evru
- Taka upp dollara sem lögeyri. Á aðlögunartíma, 1-2 ár kaupi seðlabankinn krónur á föstu skiptagengi dollars en verslar með aðra gjaldmiðla á opnum markaði.
Þetta eru í meginatriðum valkostirnir sem til eru í gengismálum nema við viljum taka upp gullpeninga. Af þessum þremur er flotgengi sú aðferð sem er hvað síst háð inngripi stjórnmálamanna á meðan viðskipti eru eðlileg og seðlabanki nýtur trúverðugleika en jafnframt býður hún upp á mestar sveiflur og mestu þörf á gjaldeyrisvaraforða. Flotgengi felur líklegast í sér meiri hættu á nýrri kollsteypu en hinir kostirnir og krefst þess að ríkisstjórn og seðlabanki axli ábyrgð og grípi til aðgerða þegar eða ef áhlaup verður gert á krónuna.
Hinir kostirnir hafa allir þann útgangspunkt að stjórnmálamenn og stjórnendur seðlabanka handstýra og taka geðþóttaákvörðun um gengið í bráð og lengd. Þar sem gengið verður að einhverju eða öllu leyti háð pólitískum ákvörðun er líklegt að fyrirtæki verði ekki rekin á sem hagkvæmastan hátt og pólitísk áhrif aukist. Haftastefna er hrein ávísun á afturhvarf til fortíðar auk þess sem erlendir fjárfestar munu forðast Ísland.
Með fastgengi er líklegt að nauðsynlegar leiðréttingar dragist eða farist fyrir vegna ástands í stjórnmálum. Því fylgir hætta á gengisfellingum og jafnvel kollsteypum þegar/ef áhlaup verður gert á krónuna. Fastgengi ætti að stuðla að jafnvægi og hafa þannig jákvæð áhrif á útflutningsgreinar en líklegra er þó að fastgenginu fylgi hár kostnaður og aukinn þörf fyrir gjaldeyrisvarasjóð.
Við ákvörðun skiptagengis og upptöku dollars mundu stjórnvöld þurfa að taka djarfa ákvörðun og óvíst hvort nægur pólitískur styrkleiki næðist fram þótt menn vildu velja þann kost. Einnig er líklegt að þessi kostur yrði valinn til skamms tíma og jafnframt ákveðið að stefna að inngöngu í ESB. Þessi valkostur mundi valda róttækum breytingum og kurr í þjóðfélaginu. Fljótlega mundi hann þó skapa trúverðugleika bæði inn á við og út á við. Mjög miklar líkur eru á að samtímis verði að ganga til samninga um myntsamstarf. Dollar tryggir eftir því sem það er hægt að við förum ekki aftur í þrot með banka- og peningakerfið okkar. Líklega mun uppbygging bæði atvinnugreina sem spara innflutning og þeirra sem auka útflutning verða hraðari en ella og líklegt að við náum fljótt að uppfylla skilyrði fyrir að taka upp myntsamstarf innan ESB.
Þegar maður skoðar kosti og galla þessara leiða er auðveldara að átta sig á því hvers vegna flotgengi er valið þótt skynsamlegra væri að taka upp dollar. Eða hvað?
Mín skoðun er sú að öruggasta, ódýrasta og eina leiðin sen hægt er að mæla með nú sé að taka upp dollar. Það er nauðvörn fyrir fjárhag heimila í okkar landi og gefur okkur svigrúm til að gera upp við fortíðina og skipuleggja framtíðina.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2008 | 23:59
Álagspróf bankanna
Ég spyr, hafði Fjármálaeftirlitið ekki hugmyndaflug til að stilla upp þeirri stöðu sem varð íslensku bönkunum að falli eða mat það líkurnar á að þetta gæti gerst jafnar núlli?
Hið raunverulega álagspróf sýnir að fullyrðingar Fjármálaeftirlits um að bankarnir stæðust álagspróf hafa heldur betur verið orðum auknar.Það þarf ekki mikinn fjármálaspeking til að stilla upp verstu mögulegum aðstæðum sem eiga að vera forsenda álagsprófs. Það eru kannski ekki miklar líkur á að versta staða komi upp en í ljósi reynslunnar má halda því fram að á 25-50 ára fresti geti það gerst sem nú er raunin.Í meginatriðum eru áhættuþættirnir þessir:
1) Viðskiptavinir fara að taka út af öllum reikningum sínum
2) Allar eignir m.a. veð í fasteignum og verðbréf tapa verðgildi
3) Íslenska krónan fellur gagnvart öðrum gjaldmiðlum
4) Lausafjárkreppa í heiminum
Sjaldan er ein báran stök og við álagspróf, varnir og fyrirbyggjandi aðgerðir verður að taka mið af versta tilfelli sem er að allt gerist á sama tíma. Álagspróf á að miðast við þær aðstæður sem skapast þegar eignaverð og íslenska krónan eru í botni.
Tap er hin hliðin á gróða og svo vikið sé að vörnum gegn hættu er gullna reglan sú að dreifa eignum og skulda ekki óhóflega. Þegar eignir lækka í verði verður að lækka skuldirnar til samræmis. Það þýðir nánast óhjákvæmilega nokkuð tap og það þarf kjark til að horfast í augu við það. Á samdráttarskeiði gefst það í fæstum tilvikum vel að fresta sölu á eignum og greiðslu skulda, frestun aðgerða eykur líkur á meira tapi. Fyrsta og besta vörnin er að láta skuldir aldrei fara yfir hófleg mörk. Með yfirgripsmiklum upplýsingum og þekkingu er hægt að dreifa áhættu á timum kreppu og leita skjóls um stutta stund í afkimum markaða, en aðeins um stundar sakir, því meginlínur eru mjög jafnhliða á krepputímum.Hætta á að banki missi trúverðugleika og viðskiptavinir taki út af bankareikningum sínum, tengist oftast öðrum hættum. Það er þó hægt að ímynda sér þær aðstæður að íslenskur banki tapi trausti vegna óhæfra stjórnenda bankans og/eða hneikslismála innan bankans sjálfs, náttúruhamfara eða spillingar á Íslandi. Aðrar ástæður geta verið þær að viðskiptavinir uppgötvuðu skyndilega að lagaumhverfið og eftirlitsstofnanir á Íslandi séu ótryggari en í öðrum löndum. Líkurnar eru litlar en við álagsprófun og varnir er ekki hægt að horfa fram hjá möguleikanum.
Einn stærsti áhættuþátturinn fyruir banka á Íslandi er krónan. Það hljóta eftirlitsstofnanir að hafa séð. Ég spyr því aftur, hvernig gat Fjármálaeftirlitið gefið það út að bankarnir stæðust öll álagspróf miðað við veika stöðu íslensku krónunnar?
Viðskipti og fjármál | Breytt 12.10.2008 kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2007 | 22:16
Uppbygging þorskstofnsins
Náttúrulegt eðli auðlindarinnar veldur því að almenningur getur farið til veiða hvar sem færi gefst nema eitthvað komi til sem takmarkar sóknina. Við náttúrulegar aðstæður ber enginn einn aðili ábyrgð á því að viðhalda auðlindinni né nýtur góðs af að stjórna nýtingu hennar. Þá kemur til kasta hins opinbera að grípa inn í og finna ráð til að vernda auðlindina.
Hin sígildu ráð felast í einhvers konar hömlum á nýtingu, eftirliti með að þeim sé fylgt og viðurlögum ef brugðið er út af. Síðan þarf að kanna hvort þær hömlur duga til að viðhalda jafnvægi í viðhaldi og nýtingu. Með kvótakerfinu virðist hafa gersamlega mistekist að viðhalda viðunandi jafnvægi í stofnstærð þorsksins í íslensku fiskveiðilögsögunni. Við vitum ekki, hvort önnur markmið um stjórnun þorskveiða t.d. varðandi arðsemi, hafi náðst. Það er fremur lítið fjallað um þau mál á opinberum vettvangi en miðað við nýjustu fregnir af ástandinu verður að setja stórt spurningarmerki við arðsemina líka. Því miður verður að álykta að brottkast við þorskveiðar sé ekki smávandamál heldur stórvandamál. Hér kemur til hið sígilda auðlindaböl sem orsakast af því að enginn ákveðinn aðili hefur hag af því að gæta umhverfisins. Allir í sjómennskunni vita að þeir hafa takmarkaðan kvóta. Þeir vita að auðlindin er takmörkuð. Þeir reyna til hins ítrasta að veiða upp í árskvótann, enda hann úr sögunni á næsta fiskveiðiári. Þótt gamli veiðistaðurinn skaðist er málið einfaldlega að flytja sig á önnur mið og reyna að veiða upp í kvótann þar áður en annar verður búinn að veiða allt. Framseljanlegt kvótakerfi byggir á eignarréttarlegum forsendum en í raun hefur mistekist að skapa eignarréttarlega stöðu þar sem sjálf uppspretta auðlindarinnar, umhverfið og skilyrðin á fiskislóð er áfram almenningur. Í gegnum árin hafa kostirnir sem bundnir voru við þessa útfærslu ekki náð að vega upp á móti göllunum. Fyrir utan gjafaúthlutun og árekstra við hagsmunaaðila eru mjög alvarlegir annmarkar á kerfinu. Eftirliti með framkvæmd kerfisins hefur mistekist að halda aftur af brottkasti og misfærslum í löndun og vigtun. Meginástæðan fyrir því hve illa er komið málum er þá að eignarréttarleg tengsl rétthafa til veiða við auðlindina eru engin. Á meðan þeir sem stunda sjómennsku hafa ekki beinan hag af því að vernda umhverfið í hafinu munu þeir ekki ganga vel um auðlindina. Einstakir aðilar í útgerð bera ekki persónulega ábyrgð á ofveiðinni. Hver um sig hefur engan hag af að hlífa lífríkinu eða fresta sókn til seinni tíma og leyfa smáfiski að stækka. Nei, einstakir aðilar hafa engan hag af því taka ákvarðanir út frá langtíma sjónarmiðum vegna þess að eign þeirra, sem er réttur til að veiða, er ekki eignarréttur. Auðlindin er eftir sem áður seld undir sömu áhættu og almenningar á landi. Réttur sem miðast við veiddan þorsk úr sjó verndar ekki umhverfið og fiskislóðina sem elur af sér þorskinn.Hvernig er skynsamlegast að hefja uppbyggingu þorskstofnsins? Ég gef mér þær forsendur að vænlegasta lausnin til verndar vaxtarskilyrðum þorsksins felist í því að innleiða eignarréttarlega leið sem er betri en núverandi kvótakerfi. Ég gef mér einnig þá forsendu að þorskar eigi sína heimahaga eins og flestar skepnur. Þótt þorskurinn sé mjög hreyfanlegur tel ég að hann hafi tilhneigingu til að vera um kyrrt þar sem góð skilyrði eru fyrir hann. Ég leyfi mér að ganga út frá því að þorskur sé nokkuð staðbundinn ef umhverfið er hagstætt. Fiskurinn hlýtur hins vegar að flýja ördeyðu. Möguleg lausn felst í að skilgreina fiskislóðir eða heimahaga þorsks á eignarréttarlegan hátt svipað og gert er með landareignir. Grundvallaratriði er að eign á hafspildu verði lögvernduð svipað og eign á landspildu. Þannig verður eigendum hafspildna mögulegt að búa í haginn fyrir lífríkið á þann hátt að stofnstærð og veiðar séu í jafnvægi. Ef eigandinn gætir ekki auðlindar sinnar, veiðir of mikið eða skaðar lífríkið á svæðinu, kemur það honum sjálfum í koll. Hann getur ekki siglt burt til veiða á öðrum fiskimiðum. Í þessu kerfi eru fiskimiðin öll í eigu einhverra sem hindra ofveiði og verja eigin hafspildu og lífríkið um leið.
Ef okkur á að takast að vernda umhverfi sjávarins verður að nota lausnir sem hafa sýnt sig að duga best. Við höfum netlög, sem er ákveðið svæði í einkaeign í sjó út af landi samanber 3. kapitula rekabálks Jónsbókar frá 1281. Hin gömlu lög byggð á reynslu fyrri kynslóða og aðlögun að skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda benda til að þessi hugmynd geti gengið upp. Eignarréttarleg leið mun til lengri tíma verða farsælasta lausnin en það þarf að hafa aðlögun og gera tilraunir með ákveðin svæði. Alþingi þarf að setja lög, sem verða áreiðanlega umdeild, sem skilgreina eignarrétt á sjávarauðlindinni, hafsbotninum, lífríkinu og sjávarföllunum. Hagasmunaaðilar, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki eða einstaklingar eiga í framtíðinni að geta keypt og átt viðskipti með hafspildur.
20.5.2007 | 17:09
Gjaldmiðillinn okkar
Það er mikilvægasta skylda næstu ríkisstjórnar að taka upp nýjan og traustan gjaldmiðil á Íslandi. Fjárhagur heimila og velferð íbúanna er mikið undir því komin að herkostnaði vegna krónunnar verði útrýmt. Það jákvæðasta sem nýja ríkisstjórnin getur gert í efnahagsmálum er að tryggja Íslandi traustan gjaldmiðil. Þrátt fyrir góða fjármálastjórn getur ríkið ekki lengur haldið úti íslensku krónunni í okkar opna hagkerfi.
Við erum farin að sjá íslensk fyrirtæki taka upp evru sem viðmiðun og mynt. Sem stendur er hagstætt að greiða öll aðföng í erlendum gjaldmiðlum, hvort sem það er fyrir laun, hráefni eða fjármagn. Einkafyrirtæki, ríkið, sveitarfélög og opinberar stofnanir eins og t.d. landspítalinn, hafa mun meira svigrúm en hinn almenni neytandi til að velja í hvaða gjaldmiðli kostnaður fellur til. Í ársuppgjörum fyrirtækja og stofnana er gjarnan talað um gengishagnað (stöku sinnum gengistap). Á móti þessum útreikningum í bókhaldi fyrirtækja er alltaf gengistap, sem hvergi er skráð, en er að miklu leyti tap íslenskra neytenda.
Hvað gerist þegar krónan fer að falla? Sífellt fleiri taka lán til einkanota í erlendri mynt. Almenningur er varaður við áhættunni sem felst í erlendum lánum vegna gengisveiflna. Áhættan er raunverulega mikil því skuldir í erlendri mynt aukast að sama skapi og krónan lækkar. En gengisáhættan er ekki bara fyrir þá sem skulda í erlendri mynt. Um leið og krónan leitar jafnvægis munu vextir og verðbætur hækka sem nemur allt að 40% sveiflu gengisins.
Í rauninni er undirliggjandi verðbólga um 3-5 prósentustig vegna gengissveiflu. Frá áramótum hefur gengi krónunnar hækkað um 10% sem þýðir samsvarandi lækkun á innfluttum vörum og þjónustu. Laun þeirra sem fá greitt í evrum kosta atvinnurekendur nú 10% minna en um áramótin.